«

»

Molar um málfar og miðla 656

 

Norska sjónvarpið (NRK2) sýndi nýlega Rakarann frá Sevilla í  stórskemmtilegri uppfærslu Metropolitan óperunnar í New York.  Í inngangi kom fram að NRK hefur gert samning  við  Metropolitan um að sýna  þaðan þrjár óperur á ári næstu þrjú árin.  Norræn sjónvarpssamvinna stendur á gömlum merg og  ef einhver   döngun væri í forráðamönnum Ríkissjónvarpsins hefði örugglega  verið  hægt að  fá aðild að þessum samningi með Norðmönnum, eða gera svipaðan samning   fyrir Íslands hönd.   En líklega  eru Ríkisjónvarpsmenn  öllum stundum uppteknir  við að semja um fótboltaleiki. Í Efstaleiti lifa menn í þeirri trú, að lífið sé fótbolti. Það sannaðist líka í dag (13.07.2011). Tveir fótboltaleikir í beinni útsendingu. Fótbolti  þar sem Ísland á enga aðild. Fréttirnar látnar fjúka eins og venjulega, þegar fótboltinn á í hlut. Þeir  bregðast ekki í boltanum Efstaleitismenn.

Það var vond  dagskrárgerð að byrja ekki sýningu  myndar Friðriks  Þórs, Djöflaeyjunnar fyrr en klukkan hálf ellefu þetta mikla  fótboltakvöld. Þetta er ein besta  mynd Friðriks (fyrir utan kúluvarps-þáttinn). Það hefði mátt  sýna myndina strax að loknum fótboltanum  og seinka seinni fréttum   um  smástund. Bættur skaðinn, því þar er  yfirleitt fátt,sem ekki var í fyrri fréttatíma  Ríkissjónvarpsins.

Molavin sendi eftirfarandi:,, http://www.dv.is/frettir/2011/7/11/daemdir-fyrir-grofa-areitni-gegn-15-ara-stulku/

Í meðfylgjandi frétt DV er fjallað um brot tveggja manna. Ítrekað er

talað um „hvern þeirra“ í stað „hvorn þeirra.“ Þessi villa er

endurtekin svo oft í fréttinni að ljóst má vera að fréttamaður kunni

ekki reglur um óákveðin fornöfn. Því miður kemur það ekki lengur á

óvart þegar um er að ræða fréttaskrif í DV. Kunnáttuleysi blaðamanna

þar um meðferð móðurmálsins er orðið átakanlegt.”  Molaskrifari þakkar sendinguna.

Það virðist  einstaklingsbundið á   fréttastofu Ríkisútvarps hvort menn beygja heiti  íþróttafélagsins Breiðabliks  eður ei. Þetta var einkar áberandi í  tíufréttum (12.07.2011) Þegar  þulur sagði   tiltekinn mann úr Breiðablik, en íþróttafréttamaður sagði  leikmanninn úr Breiðabliki, sem  auðvitað er rétt.

Brúin er í fullum undirbúningi, sagði fréttamaður Ríkissjónvarps (11.07.2011) um  bráðabirgðabrúna yfir Múlakvísl. Greinilegt er að það les enginn  málvís maður handrit fréttamanna yfir áður en  lesið er yfir okkur. 

Jóhanna Geirsdóttir  benti   Molaskrifara á eftirfarandi úr  mbl.is (11.07.201): http://mbl.is/frettir/innlent/2011/07/11/aevintyri_likast/   Þessi frétt birtist á mbl.is 11.7.2011 | 15:53  Ég velti fyrir mér tveimur spurningum: Hvar þessi ævintýragarður? – Það kemur hvorki fram í textanum né í myndskeiðinu. Hvers vegna stendur WELCOME yfir innganginum? Takk fyrir þetta Jóhanna.   Undirlægjuháttur sumra    gagnvart  enskri tungu er ótrúlegur.  Svo er þetta ætlað börnum á  aldrinum 0-12 ára !

  Það var  dálítið undarlegt í fréttum (12.07.2011) af  rútuóhappinu í Múlakvísl að  ýmist var sagt að rútan ( eða trukkurinn) hefði farið á  hliðina eða oltið í ánni. Í morgunútvarpi Rásar  tvö (13.07.2011) sagði umsjónarmaður svo að  rútan hefði sokkið! Myndir báru  hinsvegar með sér að svo illa fór ekki. Rútan festist eins og mbl.is  sagði réttilega og hallaðist talsvert. Einhversstaðar var sagt að hún hefði ekið  ofan í hyl. Málglöggur Skaftfellingur  sagði Molaskrifara  að   fyrir austan væri ekki talað um hylji í  jökulánum, heldur forir.

Ekki var  það uppörvandi að horfa á formann bændasamtakanna og  forstjóra Mjólkursamsölunnar  í einhevrskonar  tilbúnu fréttaviðtali (11.07.2011)  bugaða af minnimáttarkennd  vegna íslenskra  landbúnaðarafurða í samkeppni við   vörur  frá ESB. Datt einhverjum í hug að  Mjólkursamsalan gæti haft aðra skoðun á ESB- aðild en  bændasamtökin? Að sjálfsögðu ekki. Mjólkursamsalan er fyrirtæki, sem sagt er  eign bænda , en er í raun fyrirtæki sem enginn á.  Þetta  viðtal var raunar  mjög   furðulegt, tilefnislaust  með öllu og algjörlega laust við að vera fréttnæmt.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>