Orðið Ríkisútvarp er nú orðið bannorð í Ríkisútvarpinu. þetta var staðfest enn einu sinni í fréttatíma Ríkissjónvarpsins (14.07.2011), þegar Bogi Ágústsson fréttaþulur sagði okkur, að RÚV hefði opnað nýjan vef. Ekki Ríkisútvarpið. Heldur RÚV. Svo er í tíma og ótíma tönnlast á: Hér á RÚV, með alveg sérstaklega hvimleiðum áherslum.
Til eru samtök sem láta sig Ríkisútvarpið varða og vilja veg þess sem mestan. Varaformaður þessara samtaka er Valgeir Sigurðsson, fræðimaður og rithöfundur. Hann skrifaði grein í Morgunblaðið í vikunni og sagði þar:
„Sú nýlunda heyrist nú daglega í Ríkisútvarpinu, að starfsmenn þar á bæ eru hættir að kalla stofnunina sínu rétta nafni, heldur búa til skammstöfunina RÚV. Ekki stafar þetta af því að nafnið sé of langt og fari illa í munni. Annað mál var, þegar þrjú löng orð: Samband íslenzkra samvinnufélaga, voru stytt og kallað SÍS, enda náði sú nafngift fljótt fótfestu í málinu.
Nei, hér liggur eitthvað allt annað að baki en málfarsleg nauðsyn. Það skyldi þó ekki heldur vera hitt, sem bæði mér og mörgum öðrum hefur dottið í hug: Þeir sem nú stjórna málefnum Ríkisútvarpsins, illu heilli, lifa enn í þeim bjálfalegu draumórum nýfrjálshyggjunnar, að ekkert megi heita Ríkis… Þeir vilja venja okkur af að nota þetta orð. […]“
Þetta er kjarni málsins. fáeinir, misvitrir stjórnendur í Efstaleiti hafa ákveðið að orðið Ríkisútvarp skuli útlægt gjört. Nú þurfa ráðamenn að taka fram fyrir hendurnar á þessu fólki. sem fyrst.
Úr fréttum Ríkissjónvarpsins (13.07.2011)… en þær hugmyndir hafa aðeins verið á hugmyndastiginu, sagði fréttamaður ! Það var og.
Þórhallur Jósepsson sendi Molum eftirfarandi (12.07.2011) ,,Það er alltaf dapurlegt að skrifa fréttir af alvarlegum slysum, en hálfu dapurlegra er þegar blaðamenn hirða ekki um að fara rétt með eða kunna ekki landafræði Íslands í grófustu dráttum. Fyrirsögn mbl.is er:
„Alvarlegt bifhjólaslys á Skaga“
Síðan segir í inngangi fréttarinnar;
„Landhelgisgæslunni barst kl. 18:50 beiðni frá Neyðarlínunni um útkall þyrlu vegna alvarlegs bifhjólaslyss sem varð nyrst á Tröllaskaga.“
Hvergi í fréttinni eru aðrar eða nánar upplýsingar um slysstaðinn, var hann á Skaga eða Tröllaskaga? “ Molaskrifari þakkar sendinguna og þarfa ábendingu.
Í fréttum Ríkissjónvarpssins (13.07.2011) var ítarlega sagt frá nýrri amerískri sápuþáttaröð. Vekja á Dallas þættina upp frá dauðum. Ekki þarf að efa, að sjónvarp ríkisins sé búið að tryggja sér sýningarréttinn. Miklu skiptir að íslenska þjóðin fari ekki á mis við svona háþróað menningarefni.
Það var Séð og heyrt lykt af dagskrárkynningu Ríkissjónvarpsins (13.07.2011) þegar talað var útvarpsmanninn ástsæla ! Hver er mælikvarðinn? Hvernig er mælt ? Af hverju er þessi útvarpsmaður talinn ástsælli en aðrir? Fáránlegt. Margir hafa varla heyrt manninn nefndnan.
Í auglýsingu um þjóðhátíð í Vestmannaeyjum í Ríkissjónvarpinu er vörumerki Tuborg. Tuborg framleiðir áfengi. Enn einu sinni brýtur Ríkisútvarpið lög. Hvar eru þeir ráðherrar sem bera ábyrgð á síendurteknum lögbrotum Ríkisútvarpsins?
Skildu eftir svar