Tugir fólks úr tökuliði stórmyndar Ridleys Scott, Prometheus, gistir á hótelinu … segir í Fréttablaðinu (15.07.2011) Tugir fólks gista, ekki gistir. Skip og bátar sem boðað hafa komu sína á Sail Húsavík eru farnir að koma til hafnar.. segir á á mbl.is (15.07.2011). Skip og bátar eru farin að koma til hafnar færi betur á að segja.
Það verður að segjast eins og er, að Landinn sem Ríkissjónvarpið sýnir á sunnudagskvöldum er eiginlega eina nýjungin í dagskrárgerð þar á bæ, sem hefur heppnast reglulega vel. Landinn er yfirleitt fínn þáttur. Sama verður ekki sagt um nýjan þátt , Andri á flandri, sem var á dagskrá föstudagskvöldið 15. júlí. Einstakt þunnildi. Það er hægt að gera miklu betur í dagskrárgerð en þetta.
Þorkell Guðbrandsson sendi Molum eftirfarandi: ,,Var að hlusta á umfjöllun um hina sorglegu stöðu flóttafólks í Austur-Afríku. Í framhaldinu var fólki bent á að hringja í tiltekið símanúmer og þá yrði ákveðin upphæð „dregin af símareikningnum“. Þetta finnst mér vera hugsunarskekkja. Það best ég veit, verður næsti símareikningur hærri sem nemur þessari fjárhæð, því ekki mun ætlunin að símafyrirtæki lækki símareikninginn? Kannski er ég bara að misskilja allt saman.” Þú misskilur ekkert, Þorkell. Þetta er hugsunarvilla því eins og þú bendir á , er upphæðinni bætt við símreikninginn þinn.
Sigurður Örn Þorleifsson sendi Molum línu og segir: ,,Mér finnst það vera orðið til undantekninga að þessi orð séu borinn rétt fram, t.d einn lítri og einn metri yfirleitt er sagt einn líter í matreiðsluþáttum t.d hjá Jóa Fel, og svo í golfþætti á RUV hjá Gunnari Hanssyni þar staðnæmist kúlan alltaf hálfan meter frá holunni.” Molaskrifari þakkar réttmæta ábendingu.
Orðið glaðningur er aðeins til í eintölu. Þessvegna eiga umsjónarmenn Rásar tvö í Ríkisútvarpinu ekki að tala um glaðninga þegar þeir kynna efni í þætti sínum. Molaskrifari hefur ekki heyrt þessa orðnotkun áður, né heldur að talað sé um að eitthvað sé óhugnandi eins og gert var í morgunútvarpi Rásar tvö (15.07.2011) Í sjöfréttum Ríkisútvarps (15.07.2011) sagði fréttamaður,sem fréttirnar las: Lögreglan á höfuðborgar var tilkynnt um líkamsárás … Lögreglan var ekki tilkynnt um… Lögreglunni var tuilkynnt um. Hér er á ferðinni enn eitt dæmið um að fréttaskrifarar halda að orð í upphafi setningar verði að vera í nefnifalli.
7 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Anna R. skrifar:
18/07/2011 at 21:37 (UTC 0)
Samkvæmt Ritmálssafni Orðabókar Háskólans getur orðið ‘glaðningur’ líka þýtt veisla. Samanber þessi þrjú dæmi:
„Venjur við hátíðahöld, tyllidaga og glaðninga“ (tímaritið Íslendingur 1860-1865)
„Ýmsar veislur voru gestunum haldnar. Þar á meðal glaðningur í ráðhúsinu“ (Kvennablaðið 1914)
„Skipshöfnum á róðrarskipum voru á hverri vertíð haldnir glaðningar eða veizlur“ (Saga Vestmannaeyja 1946)
Orðið glaðningur í merkingunni VEISLA er greinilega alveg dottið úr málinu. En ég held að það sé full ástæða til að hefja það til vegs og virðingar á ný. Ég er þegar farin að leggja drög að því að bjóða vinum mínum í almennilegan glaðning.
Eiður skrifar:
18/07/2011 at 20:15 (UTC 0)
Takk fyrir þetta. Athyglisvert. Orðið er ekki að finna í fleirtölu í beyingalýsingu íslensks nútímamáls hjá Árnastofnun.
Anna R. skrifar:
18/07/2011 at 15:10 (UTC 0)
Það er ekkert að því að nota orðið glaðningur í fleirtölu!
Eftirfarandi setning kemur t.d. fyrir í Þjóðsögum Jóns Árnasonar: „Arfakaka eða kálgarðakaka er vannefnd meðal glaðninga í Íslands þjóðsögum“.
Eiður skrifar:
18/07/2011 at 09:12 (UTC 0)
Það rekst ekki á við mína málkennd. Hún er auðvitað ekki óbrigðul.
Sigurður Karlsson skrifar:
18/07/2011 at 01:24 (UTC 0)
Einmitt, fólk er eintöluorð. Er þá yfirleitt hægt að segja „tugir fólks“?
Eiður skrifar:
18/07/2011 at 00:01 (UTC 0)
Þakka þér orðion, Berglind. Mín máltilfinning segir að rétt sé að segja: Tugir fólks gista ….
Berglind skrifar:
17/07/2011 at 23:16 (UTC 0)
Eg hef alltaf haft baedi gagn og gaman ad molunum thinum en eg velti thvi fyrir mer med fyrstu athugasemdina thina hvort thu hafir mogulega verid of fljotur a ther thar sem ordid folk er eintoluord er tha ekki rett ad segja gistir?