«

»

Molar um málfar og miðla 661

Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (16.07.2011) var sagt frá heimsókn utanríkisráðherra  Bandaríkjanna   til Tyrklands. Þar talaði fréttamaður um að vera með  samúð  gagnvart Kúrdum. Betra hefði verið að segja:  að hafa samúð með Kúrdum. Þá heyrði Molaskrifari  ekki  betur í sömu frétt en talað  væri um  að  sumar bækur gætu ollið meiri skaða…. hefði auðvitað átt að vera  valdið  meiri skaða.  Þegar  Molaskrifari hugðist  fá  staðfestingu á þessu á vef  Ríkisútvarpsins var búið að  klippa aftan  af þessari setningu í hljóðupptöku  á streymivefnum !

Í íþróttafréttum Ríkissjónvarps (17.07.2011) var   sagt um Eið Smára og nýjan samning ,sem hann hefur gert   við grískt  félag. …fái í sinn hlut jafnvirði 216 milljónir króna á  samningstímabilinu. Hér  hefði verið betra  að  tala um jafnvirði 216 milljóna króna… í sama  fréttatíma  var sagt frá hjólreiðakeppni og   keppendur  hefðu hjólað í flatlendi.  Á flatlendi? Og enn um  þennan íþróttafréttatíma. Þar  var   sagt um   tvo íþróttamenn, að þeir  hefðu borið hæstan hlut. Borið sigur úr býtum. Molaskrifari er  á því  að þarna  hafi ekki verið  farið rétt með. Þeir sem sigruðu báru hærri  (hærra) hlut. Molaskrifari  kannast ekki við að talað sé um að bera hæstan hlut í merkingunni að sigra    

Yfirvinnubann flugmanna  hefst klukkan  tvö var sagt í  áttafréttum Ríkisútvarpsins  mánudaginn 18. júlí. Svo var að skilja að bannið ætti að hefjast þennan sama dag.  Bannið átti hinsvegar að hefjast  að hefjast þriðjudaginn 19.  júlí,degi seinna. Þetta var ekki leiðrétt í lok fréttatímans. Þetta var heldur ekki leiðrétt í næsta fréttatíma. Enn er spurt: Hlustar enginn á fréttastofunni á  fréttalesturinn ?    Við  eigum að  geta  treyst því að rétt sé  sagt frá  í  fréttum Ríkisútvarpsins.

Athugull lesandi spyr vegna  frétta á  mbl. is (17.07.2011) Hvað er  grashaugur ?  Fréttin er svona: Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað út skömmu fyrir klukkan tíu í gærkvöldi þar sem kveikt hafði verið í grashaug við Miklubrautina, skammt frá Skeifunni. Undarlega til orða tekið, að ekki sé meira sagt !

Mikið fjaðrafok hefur orðið vegna ummæla forseta Alþýðusambands Íslands um að almenningur  eigi að sniðganga lambakjöt í verslunum vegna þess að bændur   vilja 25% hækkun svokallaðs  viðmiðunarverðs.  Molaskrifari  hefur  lengi  sniðgengið lambakjöt, – vegna þess hve  dýrt það er orðið.  Lambakjöt er   orðið hátíðamatur ,  tiltölulega sjaldan á borðum. Sama er að segja um nautakjöt. Molaskrifari hrökklaðist frá  kjötborði, þegar honum var sagt að kílóið af  úrvalsnautakjöti  kostaði  5500 krónur. Svínakjöt og kjúklingar að ógleymdri  hrefnunni, sem hreinasta sælgæti  verða því miklu oftar fyrir valinu  en  lambakjöt og nautakjöt.

Ótrúlegt hefur verið að lesa um hremmingar farþega sem keypt höfðu fanmiða með  Iceland Express frá París  til Íslands um  helgina. Forstjórinn  segir  alla  hafa fengið skilaboð. Enginn kannast við að hafa fengið skilaboð. Félagið segir að vélin hafi bilað.  Í fréttum og frönskum fjölmiðlum kom fram að frönsk yfirvöld kyrrsettu  flugvélina  því hún var ekki talin flughæf. Þokkaleg landkynning sem þessi farmiðasala  stendur fyrir.   Farþegum troðið fjórum og  fimm í 2-3 manna herbergi. Oft með bláókunnugu  fólki. Fyrirtæki, sem  svona koma fram við viðskiptavini sína,  verða sjaldnast langlíf.

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Sæl Kolbrún. Þakka þér vinsamleg ummæli. Þetta er örugglega rétt athugað.

  2. Kolbrún skrifar:

    Sæll Eiður, takk fyrir molana þína. Í hádegisfréttum RÚV núna áðan (19.07.) var fjallað um sólarorkuver sem „færist í aukana“ að reist séu…! Þá datt mér í hug að fletta upp „færist í aukana“ á Google. Niðurstaðan var athyglisverð; það lítur út fyrir að orðalagið að eitthvað „færist í aukana“ sé að taka við af orðalaginu að eitthvað „færist í vöxt“. Ég mæli með því að þú kíkir á Google….

  3. Eiður skrifar:

    Sammála. Þetta er smábarnamál, sem heyrist oft í fréttum Ríkisútvarpsins.

  4. Geirþrúður Sigurðardóttir skrifar:

    Tók eftir því að í fréttatímanaum í hádeginu 18.07. var fréttamaðurinn að lýsa hremmingum flugfarþega I.E. sem flugu heim í gærnótt, staðinn fyrir í fyrrinótt, mér finnst þetta vera smábarnamál eða hvað finnst þér?
    Kv. Geirþrúður

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>