Lesandi skrifar: ,, Nú er orðið „cross fit“ mikið í fréttum. Mikið væri ég til í að heyra íslenskun á þessu. Er kannski til orð yfir þessa íþrótt? Fjölþraut? Alþraut? “
Hér m eð er óskað eftir tillögum lesenda um gott íslenskt orð, sem nota má þessa írþrótt eða keppnisgrein.
Annar góðvinur Molanna Molanna sendi eftirfarandi: ,,Á mbl.is (1.8.2011) er fyrirsögn: „Hvern langar ekki til að vera Eyjapæja?“. Spurningin í fyrirsögninni er eignuð ungri stúlku á þjóðhátíð í Eyjum um kynsystur sínar. Hér er greinilega ruglað saman karlkyni og kvenkyni spurnarfornafnsins “hver“ og notuð karlkynsmynd orðsins í þolfalli. Hér ætti auðvitað að vera „Hverja langar ekki til að vera Eyjapæja?“ (eintala) eða „Hverjar langar ekki til að vera Eyjapæja?“ (fleirtala) , þ.e. kvenkynsmyndin af fornafninu i þolfalli. Blaðamaður hefði mátt hafa leiðrétta útgáfu í fyrirsögninni. Ef spurningin hefði átt við um karlmenn myndi hún hafa verið: „Hvern langar ekki til að vera Eyjapeyi?“ (eintala) eða „Hverja langar ekki til að vera Eyjapeyi?“ (fleirtala).” http://www.mbl.is/folk/frettir/2011/07/31/hvern_langar_ekki Molaskrifari þakkar kærlega fyrir sendinguna.
Undarleg fjögurra dálka fyrirsögn var á baksíðu Morgunblaðsins (31.007.2011): Veðrið spilar með fjöldann. Fyrirsagnarhöfundur var að reyna að segja lesendum að veðrið hefði áhrif á það hvert fólk færi um helgina. Ekki mjög vel orðað. Veðrið hefur áhrif á aðsókn, – ekki ný sannindi !
Algengt er að heyra talað um að koma á móts við, þegar Molaskrifari hefði talið eðlilegra að tala um að koma til móts við. Ég mætti henni á móts við verslunina Ingólf. Kaupmaðurinn kom nokkuð til móts við mig og lækkaði skuldina.
Í vefauglýsingu um svokallaða ,,græna áskrift” eða vefáskrift að DV er hvað eftir annað talað um áskrift af DV, sem er ekki í samræmi við málvenju. Fólk kaupir áskrift að blaði, ekki af blaði. Rétt er að geta þess að villan var leiðrétt eftir verslunarmannahelgi.
Komdu þér burt úr kuldanum auglýsir farmiðasalan Iceland Express sem alltaf er að þykjast vera flugfélag. ,,Kuldinn” á Íslandi hefur verið svo frá tíu og talsvert yfir tuttugu gráður undanfarna daga, hiti reyndar , – ekki kuldi. Umfram allt er þetta heldur ósmekkleg auglýsing.
Er að koma í ljós að hækkanir séu of háar, spurði fréttamaður í fréttum Stöðvar tvö (31.07.2011) Hækkanir geta hvorki verið lágar né háar. Miklar geta þær verið, litlar verulegar eða óverulegar.
Þrennt annað, – kannski ekki allt stórvægilegt hnaut Molaskrifari um í þessum sama fréttatíma Stöðvar tvö. Þar var talað um að skjóta upp flugeldasýningu ( þá verður flugeldasýning, flugeldum verður skotið á loft), ná útlitslegri fullkomnun, ( laga útlitið) og hámarka árangur (bæta árangur).
3 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Jóhannes skrifar:
03/08/2011 at 23:19 (UTC 0)
Ég hef heyrt þessa ágætu íþrótt kallaða ‘þver-þrek’.
Eiður skrifar:
03/08/2011 at 14:59 (UTC 0)
Þakka þér línurnar, Sigurður. Ég er búinn að látavorðið alþingiskona fara í taugarnar á mér síðan í árdaga Kvennalistans.
Sigurður G. Tómasson skrifar:
03/08/2011 at 12:25 (UTC 0)
Það er eðlileg málnotkun að nota karlkyn í samböndum eins og „hvern langar ekki?“, þótt viðfangið sé kvenkyn. Þetta hefur sjálfsagt verið gert alla tíð. Það er líka eðlileg málnotkun að tala um foreldra í hvorugkyni, þótt málfræðikynið sé karlkyn. Hið sama á við ýmis starfsheiti. Kennarar og læknar t.d. eru bæði konur og karlar og hið sama á við um alþingismenn, þótt misviturt baráttufólk viti það ekki. Tungumálið er ekki að öllu leyti rökrétt og verður víst aldrei.