Fjöldi góðra nýyrða hefur verið búinn til um ýmis tól og tæki sem okkur hafa borist. Nægir þar að minna á orð eins og sími, sjónvarp, útvarp, þota, þyrla. Af nógu er að taka. Í Ríkisútvarpinu hafa míkrófónar verið auglýstir að undanförnu. Um þessi tæknitól er til prýðilegt íslenskt orð,- orðið hljóðnemi. Gegnsætt og gott. Tæki sem nemur hljóð. Ef á auglýsingastofu Ríkisútvarpsins starfaði einhver með svolitla máltilfinningu hefði auglýsanda verið bent á þetta og íslenska orðið notað. Hvar er málstefna Ríkisútvarpsins? Það er ekki nóg að semja gott plagg og stinga því svo niður í skúffu og veifa á tyllidögum.
Í fréttum Stöðvar tvö (05.08.2011) var talað um þörf fyrir þessari þjónustu. Hefði átt að vera, þörf fyrir þessa þjónustu. Þörf fyrir eitthvað, þolfall, ekki þágufall.
Vonandi var það mismæli en ekki vankunnátta þegar sú sem kallar sig ,,Morgunfrú” Ríkisútvarpsins talaði um skáldið Stephan G. Stephansson sem Stephan G. Stephensen (05.08.2011). Skagfirðingurinn Stefán Guðmundsson breytti nafni sinu er hann flutti til vesturheims eins og svo margir gerðu fljótlega eftir komuna vestur. Hann var Stephanson en ekki -sen.
Guðný sendi Molaskrifara línu (05.08.2011) og benti á eftirfarandi á pressan.is: Það var í Kína sem hinn óheppni Zhang Bo brá heldur betur í brún þegar mótorhjólið hans sporðrenndist skyndilega og hann fór á flug. Í þessari stuttu setningu eru tvær villur hið minnsta: Fyrst er sagt að hinn óheppni Zhang Bo hafi brugðið í brún. Einhver bregður ekki í brún. Einhverjum bregður í brún. Í öðru lagi er sagt: … mótorhjólið hans sporðrenndist…! Líklega hefur viðkomandi ætlað að segja: Mótorhjólið sporðreistist, stakkst á endann, valt. Að sporðrenna er að kokgleypa, gleypa í heilu lagi.. Hvílíkt rugl. Molaskrifari þakkar sendinguna.
Því þynnri sem þættir í Ríkissjónvarpinu eru því meiri áhersla er lögð á að auglýsa þá í dagskrárauglýsingum sjónvarpsins. Þannig var með þáttinn Andri á flandri (05.08.2011). Viðmælandi skrifari baðst afsökunar á slettunni, en sagði að þessir þættir væru einskonar egótripp ! Er það annars ekki þvert á viðvaranir Umferðarstofu að vera með þung gæludýr laus og óbundin í bíl ? Það er eins og mig minni að það sé talið hættulegt.
Í fréttum Ríkissjónvarps (05.08.2011) var talað um að skora á til að koma. Þarna var forsetningunni til ofaukið. Nægt hefði að segja að skora á að koma.
Úr mbl.is (05.08.2011) Fólkið var á ferð á ísnum um 40 km frá Longyearbyen. Asta Ødegaard, talsmaður sýslumannsembættisins á Svalbarða segir við vef Aftenposten … Frétt mbl.is (http://www.mbl.is/frettir/erlent/2011/08/05/lest_eftir_eftir_aras_isbjarnar/ ) af því er hvítabjörn drap breskan ungling á Svalbarða er ekki mjög nákvæm sé hún borin saman við frétt aftenposten.no um sama atburð. Sjá: http://www.aftenposten.no/nyheter/iriks/article4192886.ece
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
07/08/2011 at 20:46 (UTC 0)
Þetta er ekki unnt að skilja á annan veg en að Teitur sé að verða tíræður !
Guðmundur Þór Ásmundsson skrifar:
07/08/2011 at 15:45 (UTC 0)
Blogg DV
Brestir Tryggva Þórs Herbertssonar, Teitur
11:09 › 5. ágúst 2011
Hvað ætli Teitur sé gamall? Hann skrifar:
Þegar ég var dyravörður á skemmtistaðnum 22 á öndverðri síðustu öld,