«

»

Molar um málfar og miðla 681

Þegar Morgunblaðið í  nafnlausum Staksteinum (06.08.2011) skensar Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, enn einu sinni   fyrir að hafa  farið fjarðavillt á  Vestfjörðum lendir  Staksteinaskrifari (eða prófarkalesari, ef sú stétt er enn á lífi í Hádegismóum) ofan í keldu. Staksteinum  lýkur á  augljósri tilvísun í  frægt  ljóð  Tómasar Guðmundssonar, eins  besta ljóðskálds okkar á liðinni öld.  Í Staksteinum  stendur: ,,Þar hvað vera fallegt”.  Tómas orti hinsvegar í ljóði sínu Í  vesturbænum: ,,Það kvað vera fallegt í Kína. Keisarans hallir skína, hvítar við safírsænum”. Ljóðabók Tómasar, Fagra veröld, sem kom út   1933 skipaði honum á stórskáldabekk. Ekki síst orti hann sig inn í hug og  hjörtu Reykvíkinga.

,,Aldrei hefur vegur Íslendinga verið meiri né menning þeirra rismeiri en þegar samskipti þeirra við aðrar þjóðir hafa verið  sem sterkust.” Þetta eru svo sannarlega orð að sönnu.  Tilvitnunin  tekin út úr grein  fyrrverandi ráðherra  í leiðaraopnu Morgunblaðsins (06.08.2011) og  prentuð  stærra letri með  greininni til að vekja athygli á efni hennar. Greinin er framlag í umræðuna  gegn  aðild að ESB, en höfundur  er aðildinni andvígur.  Gallinn er  hinsvegar sá að  þessi orð  ráðherrans  fyrrverandi  eru ein af sterku röksemdunum  til stuðnings nánara samstarfi okkar við Evrópuþjóðirnar. Hann er því óviljandi að mæla með enn nánari tengslum okkar við  þjóðir  Evrópu.

Í fréttum Stöðvar tvö (06.08.2011) var talað um að læra kokkinn, þjóninn og bakarann. Ekki fréttalegt orðalag.  Í sama fréttatíma  sagði íþróttafréttamaður: Lokadagur mótsins fer fram á morgun. Hann átti við að lokadagur  væri á morgun.  Sami fréttamaður sagði: Tvennum sögum fer um.   Tvennum sögum fer af , hefði hann átt að segja og gerði reyndar seinna í sömu frétt.

Góður og tímabær er málfarspistill Þórðar Helgasonar í Sunnudagsmogga (07.08.2011), –  Að heilsast og kveðjast. Vonandi lesa  hann sem flestir, en líklega lesa þeir hann síst sem mest þyrftu á að halda.

Ríkissjónvarpið heldur  áfram (06.08.2011) að endursýna kvikmyndir án þess að segja þeim sem greiða nefskattinn að um endursýnt efni sé að ræða. Það er greinilega talinn algjör óþarfi að vera að upplýsa lýðinn um hvort kvikmyndir hafa verið sýndar áður.

Örnefnið  Blautulón vafðist  fyrir  fréttaskrifurum á flestum fjölmiðlum , þegar  þar varð óhapp , þar sem þó fór  betur en á horfðist. (06.08.2011). Örnefnið  Blautulón  er samkvæmt  korti   heiti á  að minnsta kosti tveimur lónum sem liggja  saman.  Í  fréttinni  á visir.is er sagt að  rúta hafi hafnað ofan í Blautulóni.  Ætti   að vera  ofan í Blautulónum, rútan  valt ofan í Blautulón. Á mbl.is  var fyrirsögnin  rétt: Rúta valt ofan í Blautulón. Í fréttinni  var sagt að rútan hefði lent  ofan í Blautulóni. Þetta var leiðrétt  síðar.

Á fréttavef  Ríkisútvarpsins var þetta svona: ,,Rúta lenti ofan í Blautulóni

Litlu munaði að illa færi í dag þegar rúta full af ferðamönnum frá Tékklandi, lenti ofan í Blautulóni á Fjallabaksleið nyrðri. Þetta var um hálf fimm leytið. Alls voru 22 í rútunni. “ Í  fréttum Ríkisútvarpsins  miðnætti var  sagt  rútan  ,,væri á  bólakafi í Blautulóni”.  Á fréttavef  Ríkisútvarpsins  um klukkan 21 00 á sunnudagskvöld (07.08.2011) var enn talað um  rútu  á kafi í Blautulóni ! Þeir sem skrifuðu um  þetta atvik hefðu getað haft þetta rétt, ef þeir  hefðu gefið sér  tíma til að  líta á þetta örnefni á sæmilegu Íslandskorti sem hlýtur að vera til á öllum  fréttastofum og ritstjórnum. Ef þessar stofnanir eiga ekki Íslands Atlas Eddu útgáfu, 2006,  ættu þær að eignast hann hið fyrsta.

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Þakka þér orðin , Ágústa Ósk.

  2. Ágústa Ósk Jónsdóttir skrifar:

    Fyrirsögn í Vísir í dag : Lauk þríþraut með aðstoð gerfilims.
    Þegar fréttin er lesin kemur í ljós að kona sem hefur gerfifót lauk keppni
    í þríþraut. Málfræðilega er fyrirsögnin sjálfsagt rétt,en með tilliti til þess
    hvaða hlut er venjulega átt við með þessu orði ,er fyrirsögnin smekkleysan
    uppmáluð. Heimskan utan gyllt og innan tóm. þakka þér einstaklega góða
    athyglisverða þætti.

  3. Kristian Guttesen skrifar:

    Sæll, Um það fer tvennum sögum — Það ætti að vera í lagi, sbr.:

    „Um uppruna nafnsins fer tvennum sögum. Það gæti verið leitt af… “

    (http://snara.is/vefbaekur/g.aspx?dbid=36&action=search&sw=H%C3%B6r%C3%B0ur*)

    Kv, Kristian

  4. Frímann skrifar:

    Í kvöld var sagt frá „friðsælum mótmælum“ í fréttum ríkissjónvarpsins. Þetta er nokkuð sem ég hef ekki heyrt áður.
    Og svo var það fréttamaðurinn sem sagði frá „kræklóttum vegi“. Ég man ekki eftir að hafa heyrt þessa samlíkingu áður og efast stórlega að hún eigi við.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>