,,Enn ein ræktunin upprætt“, er ágæt fyrirsögn á Vefmogga. Frétt í sama miðli um mikil flóð í Norður Dakóta er hinsvegar dapurlegt dæmi um óvenjulega illa skrifaða frétt.
Ný sögn hefur verið að ryðja sér til rúms í fjölmiðlum að undanförnu. Það er sögnin ,,að toppa“ í merkingunni að skara fram úr eða vera einhverjum hæfari eða betri í einhverju. Tvær fyrirsagnir þar sem þessi sögn kom fyrir voru nýlega á sama skjánum á Vefvísi: ,,Framsókn toppaði of snemma“ og ,,Hefði viljað toppa Hillary á öðrum sviðum „. Þetta er auðvitað hrátt úr ensku. Ekki sé ég ástæðu til að fagna þessari nýlundu.
,,Frumvarpið er beint gegn….“ var sagt í morgunútvarpi Rásar 2 (27.03). Þetta er auðvitað rangt. Rétt hefði verið að segja Frumvarpinu er beint gegn.. , eða Frumvarpið beinist gegn.. Það er eins og stundum séu menn hræddir við að hefja setningu öðruvísi en upphafsorðið sé í nefnifalli.
Í hádegisfréttum RÚV (27.03) var sagt að vindurinn væri í fangið á Sjálfstæðisflokknum. Fallegra hefði mér fundist að segja, að Sjálfstæðisflokkurinn væri með vindinn í fangið. Í sama fréttatíma var fjallað um fyrirhugað eldflaugaskot Norður Kóreumanna. Talað var um að eldflaugin ,,drifi“ svo og svo langt. Mér fannst þetta vera barnamál. Í mínu ungdæmi var sagt um þann sem ekki gat kastað bolta mjög langt: ,Iiss, þú drífur ekki neitt“. Eðlilegra hefði mér fundist að segja,,,eldflaugin dregur fimm þúsund kílómetra“, eða hvað það nú var. Flugvélar sem geta flogið langa loftsins vegu eru langdrægar.
Það var sérkennilegt að hlýða á varaformann Framsóknarflokksins flytja ræðu í umræðum um Bjargráðasjóð á Alþingi í vikunni. Þar vitnaði hann í ræðu þingmanns Frjálslynda flokksins, sem vísað hefði öllum efnhagstillögum Framsóknarflokksins á bug í einu lagi. Kvaðst varaformaðurinn vonast til að þingmaðurinn læsi ræðu sína yfir og beytti henni. Það er örugglega einsdæmi að heyra þingmann hvetja þingbróður til að breyta efni ræðu áður en hún prentuð í Alþingistíðindum, þannig að þar standi annað en sagt var í ræðustóli. Varaformaður Framsóknar gerði hinsvegar vel í því að lesa sína eigin ræðu vel yfir. Þar jaðraði við að væri ambaga í annarri hverri setningu.
Svo þakka ég jákvæð ummæli í athugasemdum. Doddý segir frá stuttum kynningarfundi frambjóðenda tiltekins stjórnmálaflokks. Fundinn kölluðu þeir upp á ensku ,,Brief“ eða ,,Bríf“. Hafi þessir frambjóðendur skömm fyrir. Gaman væri annars að vita úr hvaða stjórnmálaflokki þessir stjórnmálamenn voru ,sem ekki treysta sér til að tala íslensku við tilvonandi kjósendur !
ES Röð Molanna víxlaðist hjá mér. Ætti ekki að koma að sök.
4 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
ÞJÓÐARSÁLIN skrifar:
30/03/2009 at 13:21 (UTC 0)
Ég held ég verði að benda á síðustu færslu mína: Hörmungarfrétt. Þarna held ég að Vef-Mogginn hafi slegið öll met.
baldvin berndsen skrifar:
30/03/2009 at 10:14 (UTC 0)
Sæll félagi og þakka þér skemmtilega pistla um málfar. Ég vildi benda þér á veðurfréttafólkið í sjónvarpinu, sem ég reyndar kalla '' spaugstofuna # 2 '' því málvillurnar og framsetningin eru slíkar að það er ekki hægt annað en að brosa. Það er eins og að ekki fáist fólk í þessi störf sem getur talað tungumálið og komið frá sér efninu villulaust. Kíktu á þetta. Það er þó undantekning í þessu, eins og öðru, en það er Siggi Stormur, sem yfirleitt stenst prófið.
Kveðjur,
Baldvin
Hundur í manni... skrifar:
30/03/2009 at 05:14 (UTC 0)
Þorsteinn, að toppa er bara bull og sömuleiðis bríf. Svo er æskilegt að rita spurningamerki eftir spurningu. En ágætt að sjá sjaldséða sögn: ílendast.
Nóg komið ag ílengingum fyrir minn smekk.
Eiður !
Þú Rokkar !
Þorsteinn Sverrisson skrifar:
29/03/2009 at 21:16 (UTC 0)
Að toppa er auðvitað úr ensku en er ekki bara gaman og eðlilegt að fá svona sendingar inn í málið sem falla að því og auðga það. Flestar svona sendingar koma og fara en sumar ílendast. Bríf er alveg nothæft líka, rímar t.d. við hlíf. Mig grunar að flest íslensk orð séu komin inn í málið með þessum hætti í gegn um tíðina en mér finnst mestu máli skipta að þau séu felld að íslensku málkerfi t.d. með hljóðlíkingu. Dæmi: prestur, kirkja, gemsi o.s.frv.
Annars var ég að leggja til áðan að leita meira til Færeyinga eftir nýyrðum.
http://www.steinisv.blog.is/blog/steinisv/entry/840996/