«

»

Molar um málfar og miðla 1910

EFTIR AÐ ….

Molavin skrifaði (15.03.2016): „Tveir lög­reglu­menn særðust, ann­ar þeirra al­var­lega, eft­ir að hafa fengið skot í höfuðið.“ Úr frétt á mbl.is 15.3.2016. Ætli þeir hafi ekki særst ÞEGAR þeir fengu skot í höfuðið. Varla löngu síðar. Þessi „eftir-plagsiður“ fréttaskrifara er nýlunda en sést ótrúlega víða. Hugsunarleysi og eftirlitsleysi fara því miður víða saman á fjölmiðlum. “  Rétt athugað, Molavin. Þakka bréfið.

 

SLÖK  SKILTAGERÐ

H.H. sendi Molaskrifara línu og mynd  af skilti frá  Mathúsinu í Flugstöðinni.  Á skiltinu stendur á  ensku:  ,,Please use  the baking paper  while you grill your  sandwich”. Látum þetta nú vera, þótt betur  færi ef til vill á að segja :  Please use the baking paper when grilling your  sandwich”.  En  íslenski textinn er  ekki traustvekjandi: Hann er  svona: ,, Notið bökunarpappír þegar grillað er samlokunar” Ótrúlegt en satt. Það þyrfti mikið  til að Molaskrifari hefði lyst á samloku frá þessu fyrirtæki.

 

AÐ KVEÐJA SÉR HLJÓÐS

Að kveðja sér  hljóðs er að  biðja um orðið, taka til máls.  Í frétt á  visir.is (15.03.20116) segir, að  þingmaður hafði brugðist illa við  svörum fjármálaráðherra við  fyrirspurn á Alþingi. Í fréttinni segir: ,,Þetta gerði hann á þingi í dag eftir að hafa kveðið sér hljóðs um fundarstjórn forseta.” Eftir að hafa kvatt sér  hljóðs  hefði þetta átt að vera að mati og samkvæmt máltilfinningu Molaskrifara.  http://www.visir.is/kristjan-gerir–mjog-alvarlega-athugasemdir–vid-svar-bjarna-um-borgunarmalid/article/2016160319177

 

 

URÐU VARIR VIÐ SKOTHVELLI

Í frétt á mbl.is  (15.03.2015) segir,, Lög­reglu­menn hafi þá orðið var­ir við skot­hvelli sem virt­ust koma frá fiski­hjöll­um þar skammt frá. “ Urðu varir  við skothvelli?  Heyrðu skothvelli , hefði maður haldið að þetta ætti að vera. Svo voru þetta  ekki  fiskihjallar. Þetta voru trönur , – um það segir  orðabókin, –  trönur  -trégrindakerfi til að þurrka, herða fisk á. Hjallur er allt annað, –  í málvitund  Molaskrifara.  Í Þórshöfn í Færeyjum var hann svo lánsamur  að búa um skeið í húsi þar sem var hjallur. Húsið var ekki neinn hjallur, en  kalda geymslan var hjallur. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/03/15/oskudu_sersveitar_vegna_hvellbyssna/

Bóndi austur í sveitum,sem notað hefur svona  gashvelltæki til að fæla  álftir og gæsir  af ökrum og túnum, segir Molaskrifara að það taki  fuglana bara nokkra daga að venjast hvellunum. Svo halda þeir bara áfram að éta og   skemma tún og  akra.

 

GÓÐ DAGSKRÁRGERÐ?

Er það góð dagskrárgerð að senda út  danska þætti um kökubakstur (Det søde liv)  á besta tíma kvölds eins og  Ríkisjónvarpið gerði á þriðjudagskvöld (15.03.2016)?  Nei. Það finnst skrifara ekki.  Það er stundum eins og markvisst sé   verið að hrekja  stóra  hópa  frá  Ríkisskjánum. Kökuþættir  geta svo sem verið í lagi, – en ekki á besta tíma kvölds.

 

 Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>