«

»

Molar um málfar og miðla 221

Í DV (16.12.2009) er tekið svo til orða að ,feitt bragð sé af kjötinu“. Hér þætti Molaskrifara eðlilegra að segja að fitubragð sé kjötinu, því bragð er að þá barnið finnur, eins og þar stendur.
Í sama blaði er talað um að svör við spurningum blaðamanns hafi verið fáfengileg. Molaskrifari er þeirrar skoðunar , að betra hefði verið að segja  að svörin hefðu verið fátækleg. Merking orðsins fáfengilegur er venjulega hégómlegur.
Fjallað var um meintan fjárdrátt í Landsbanka Íslands í fréttum Stöðvar tvö (16.12.2009) og tekið svo til orða , að viðkomandi hefði dregið að sér fé. Hið venjulega orðalag um þetta  afbrot er að draga sér fé.Ekki draga að sér fé. Fjárdráttur heita  afbrot af þessu tagi.

Í sama fréttatíma Stövar tvö talaði fréttamaður um að fiskibátur hefði hvolfst. Bátum hvolfir- þeir hvolfast ekki. Þulur hafði þetta alveg rétt. Notkun þessa sagnorðs vefst fyrir fréttamönnum. Í sex fréttum RÚV að morgni 17.12. sagði fréttalesari um þetta sjóslys, að báturinn hefði hvolft. Báturinn hvolfdi ekki , bátnum hvolfdi.

Í íþróttafréttum Stöðvar tvö sama dag var sagt: ,,…segist hafa gert meiri væntingar til hans.“ Hér hefði verið betra að segja haft meiri væntingar um frammistöðu hans. Við gerum ekki væntingar. Við höfum væntingar til einhvers.

Stöð tvö á hrós skilið fyrir landsbyggðarfréttir Kristjáns Más Unnarssonar. Hann er glúrinn að finna áhugaverð umfjöllunarefni og á þessu sviði slær Stöð tvö fréttastofu ríkisins með allt sitt mikla kerfi svo sannarlega við.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>