«

»

Molar um málfar og miðla 238

Eftirfarandi stendur á pressan.is (14.01.2010): Þórólfur Matthíasson, hagfræðiprófessor, segir rangt að hengja Dani út sem andstæðinga Íslendinga í Icesave-málinu.  Molaskrifari  verður að játa,  að hann hefur  aldrei heyrt talað um að hengja  fólk út ,  hvað þá heilu þjóðirnar. Móðir mín hengdi út þvott til að þurrka hann. Það var löngu fyrir tíma  rafmagnsþurrkara. Talað er um að hengja bakara  fyrir  smið, þegar sök er færð á  saklausan. Þarna hefði   dugað að segja  ….að benda  á Dani sem  andstæðinga….

 Velunnari Molanna sendi eftirfarandi: „Ég horfði á hluta handboltaleiksins áðan.  Þar kom: „Maður tekur bara ofan af fyrir þessu.”  Að leik loknum spurði fréttamaður RÚV Ólaf Stefánsson:: „Hvað getið þið tekið með ykkur út úr þessum leik?” Er það nú íslenska!”

 Annar Molavelunnari sendi  eftirfarandi: „Það er gaman að hlusta á Boga Ágústsson svona mátulega afslappaðan eins og hann er jafnan í heimsóknum sínum á Morgunvakt Rásar tvö, ekki síst eftir að nýir umsjónarmenn tóku við. Þátturinn hefur batnað til muna. Heimsókn hans í morgun var engin undantekning. Hins vegar má geta að Bogi mismælti sig;  féll í þá gryfju að segja að eitthvað hefði gerst „í einum vettvangi“ þegar hann átti við eitthvað hefði gerst mjög fljótt. Þarna hefði hann átt að segja „í einu vetfangi“. Vettvangur er staður þar sem einhver atburður gerist. Vetfang merkir andrá.”       

– Við þetta vill Molaskrifari  aðeins bæta  því ,að Bogi fékk „ gott uppeldi” þegar hann hóf störf hjá  Sjónvarpinu fyrir margt löngu,   en öll  mismælum við okkur ,  eða  verður  „fótaskortur á tungunni” eins og  stundum er sagt í hálfkæringi. Mismæli eru mannleg. 

Og þetta:  „Stundum hefurðu hnýtt, réttilega, í það þegar orðið „outlet“ er notað um útsölumarkaði. Á síðu 37 í Fréttblaðinu í dag er auglýsing frá Gula húsinu í Faxafeni, sem er einmitt slíkur markaður. Það er hins vegar ánægjulegt að sjá að í auglýsingunni er hvergi minnst á „outlet,  heldur einfaldlega sagt útsölumarkaður. Vonandi fara aðrir útsölumarkaðir að ráði Gula hússins.” 

 Þakka þessar sendingar  og tek undir að  vonandi   hverfur slettan  „outlet” úr auglýsingum.

Eitthvað svolítið hefur Jónas Kristjánsson ruglast í ríminu, þegar hann skrifaði  eftirfarandi (14.01.2010):Nú síðast reynir stofnunin að reka  út fólk, sem er  í fullri vinnu. Jafnvel ríkisstarfsmönnum.  Rétt hefði verið að segja: Nú síðast  reynir stofnunin að vísa úr landi ,  eða vísa á brott fólki ,sem er í fullri vinnu. Jafnvel ríkisstarfsmönnum. Jónas var að tala um Útlendingastofnun. 

Í íþróttafréttum RÚV  (14.01.2010)  voru sýndir  hundar,sem  drógu skíðamenn. Sagt var: …. dreginn af hundum  yfir  langa  vegalengd…  Í fyrsta lagi er óþarfi að  nota  þarna  þolmynd, germynd er alltaf  betri og svo er ekki gott mál að  segja : yfir langa vegalengd(e. over long distances ?)  Betra  væri   langa leið, langar leiðir, langt,  eða  nefna  vegalengdina, sem  þarna kemur við sögu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>