Athyglisverð viðtöl voru flutt í morgunþætti Rásar tvö (03.03.2010) um Herbalife,sem kallað er fæðubótarefni. Annarsvegar var rætt við rólegan og yfirvegaðan prófessor, sem ásamt fleiri læknum hefur rannsakað aukaverkanir Herbalife. Hinsvegar var rætt við óðamála, og allt að því dónalegan, höfuðpaur Herbalife innflutnings. Aldeilis dæmalaust. Þessi tvö viðtöl mundu henta vel sem dæmi í kennslu í fjölmiðlun. Spyrjendur stóðu sig ágætlega.
Á Stöð tvö er verið að ginna fermingarbörn og freista þeirra til að taka þátt í einhverskonar leik og vinna sér inn fé eða vöruúttekt. Stöð tvö segir: Auk þess verða hundrað heppin börn dregin út. Það er ekki öfundsvert eða eftirsóknarvert að verða dreginn út. Það sem við er átt er að nöfn hundrað fermingarbarna verða dregin út.
Í kvikmyndaauglýsingu á Stöð tvö ( 26.02.2010) var svona tekið til orða: Þarna ertu enn að dreyma um… Betra hefði verið að segja: Þarna er þig enn að dreyma um, – því ég er ekki að dreyma um.. heldur er mig að dreyma um,…. að málfar í íslenskum fjölmiðlum fari batnandi.
Í fréttum Stöðvar tvö (03.03.2010) var talað um að fella niður höfuðstóla. Orðið höfuðstóll er ekki til í fleirtölu. Því er rangt að tala um höfuðstóla.
Það leynir sér ekki að breyting á eðlilegri orðaröð er að læðast inn í íslenskuna úr ensku. Eftirfarandi þrjú dæmi eru úr nýlegum auglýsingum: … fyrir þína húð, … komin í þína lúgu…. við smíðum þínar innréttingar.. Þarftu viðhald á þinni fasteign ? Dæmin eru örugglega fleiri. Ekki er þetta breyting til bóta.
Sjónvarpsstöðvarnar hafa sérfræðinga til að flytja fréttir að formúlukappakstri, svokölluðum. Þeim er ýmislegt annað betur gefið en að vanda málfar sitt. Sérfræðingur Stöðvar tvö sagði (02.03.2010). Mótshaldið hefst. Mótið hefst, hefði verið betra að segja.
Í mbl.is (27.02.2010) var fjallað um jarðskjálftana í Síle og minnst á íslenskt fyrirtæki sem er með starfsemi þar. Netmiðill Moggans segir: … sem er með útgerð og fiskvinnslu á vesturströnd Síle. Muni Molaskrifari rétt, á Síle aðeins land að sjó til vesturs.
Hin tuttugu ára gamla Yasmine Judge, hefur verið vikið tímabundið úr starfi sínu á leikskóla.. Eins og svo oft áður, hroðvirkni eða vankunnátta? visir.is (03.03.2010). Hér átti auðvitað að standa : Hinni tvítugu Yasmine Judge hefur verið vikið….
Skildu eftir svar