Í heilsíðuauglýsingu (DV 15.03.2010) frá Samtökum verslunar og þjónustu og VR segir stórum stöfum: Þú spilar stórt hlutverk. Þetta er ekki góð íslenska. Þetta er heldur vond prentsmiðjudanska. Danir tala um að spille en rolle, ef dönskukunnáttan ekki bregst Molaskrifara. Á íslensku tölum við um að leika hlutverk. Enn eitt dæmi málspjöll auglýsingafólks. Fjöldasamtök, eins og SVÞ og VR,u eiga að hafa metnað og sómatilfinning til að leggjaekki nafn sitt við svona auglýsingar.
Á mbl.is var (13.03.2010) frétt um um viðræður Rússa og Bandaríkjamanna. Þar er þetta að finna: ..eru nálægt því að ná samkomulagi um afvopnun kjarnavopna… Þá hlýtur að vakna spurningin: Hvernig vopn séu afvopnuð?
Á dv.is var (13.03.2010) frétt um hnignun Detroit borgar í Bandaríkjunum. Þar segir meðal annars: Nú er sá tími liðinn og borgin aðeins skugginn af sjálfum sér. Rétt hefði verið að segja að borgin væri sem skuggi af sjálfri sér. Fréttin er með endemum illa skrifuð og ættu ritstjórar að taka þann sem þar hélt á penna rækilega til bæna.
Um fréttamat og efnisröðun fjölmiðla má endalaust deila. Molaskrifara fannst sérkennilegt að Morgunblaðið skyldi helga forsíðu sunnudagsblaðsins (14.03.2010) poppsöngvara, þegar margt annað áhugaverðara efni var í blaðinu. Nefnir Molaskrifari þar sérstaklega viðtal við Erling Sigurðarson og eiginkonu hans Sigríði Stefánsdóttur. Erlingur er þjóðkunnur af þátttöku sinni í Útsvari, en hann er haldinn Parkinson veiki. Viðtalið við þau hjón fannst Molaskrifara þúsund sinnum áhugaverðara en spjallið við popparann. En svo er margt sinnið sem skinnið. Hinsvegar sýndi það ágæta kímnigáfu hjá Útvarpi Sögu (16.03.2010) að telja það eina aðalfrétt dagsins snemma í morgun að þessi fertugi poppari hefði ekki áhuga á að verða forseti Íslands ! Stóð honum, það til boða?
Ekki var Molaskrifari sáttur við er talað var um að koma líki fyrir kattarnef í fréttum Stöðvar tvö (13.03.2010). Líklega stenst þetta þó skoðun, því í Merg málsins eftir Jón G. Friðjónsson merkir að koma einhverju fyrir kattarnef að útrýma e-u, farga e-u eða losa sig endanlega við e-ð. Fróðlegt væri að heyra hvað öðrum finnst um þetta.
Fyrirtækið Dressman auglýsir: Taktu þrjár. Borgaðu tvær. Molaskrifara finnst að frekar ætti að segja: Taktu þrennt. Borgaðu tvennt. Það er eins og átt sé við: Taktu þrjár vörur. Borgaðu tvær vörur, – sem er auðvitað málleysa.
Í fréttum RÚV (13.03.2010) talaði borgarstjórinn í Reykjavík um að reka þjónustu. Ekki getur það talist gott orðalag. Betra væri að tala um að veita þjónustu eða annast þjónustu.
Skildu eftir svar