Það er virðingarvert og þakkarvert að Morgunblaðið skuli vikulega birta pistla um íslenskt mál undir heitinu Tungutak. Nýjasta pistilinn (11.042010) skrifaði Ingibjörg B. Frímannsdóttir. Hann heitir: Meira um mælt mál. Allir fjölmiðlamenn, sem lesa fréttir í útvarpi eða sjónvarpi, ættu að lesa þennan pistil og tileinka sér það sem þar er sagt. Það gildir einnig um þá sem kynna dagssskrá sjónvarpsins á skjánum.
Þetta minnti mig reyndar á þegar Baldur Jónsson,prófessor, var að leiðbeina okkur fréttamönnum sjónvarps, forðum daga. Ég fékk það verkefni að lesa texta þar sem kom fyrir orðið, – Bandaríkjunum. Ég las það eins og það var skrifað með skýrum —unumframburði í lokin. Nei, sagði Baldur, – þú átt að bera þetta fram: Bandaríkjonum. Og ég sem hélt að ég væri að vanda mig ! Lét mér þetta að kenningu verða.
Óþolandi finnst Molaskrifara, þegar fréttalesarar taka eitt orð í setningu og hátóna það, þannig að setningin verður öll óeðlileg. Þetta mátti heyra í fréttum Stöðvar tvö (11.004.2010) Þar sem orðið Baldvinsskáli fékk þessa meðferð í frétt um ferðamenn á Fimmvörðuhálsi. Svo er algengt að heyra þetta í kynningum á efni Kastljóss, þar sem einn kynnir hátónar orð, sem honum (henni) finnst rétt að leggja sérstaka áherslu á og bjagar þannig alla setninguna. Þetta er hægt að lagfæra, ef áhugi er á.
Enn fellur dv.is á prófinu í grundvallaratriðum málfræðinnar (12.04.2010): Hinn 61 árs gamli Roy Amor grunaði ekki að saklaus brandari … Þetta á auðvitað að vera: Hinn 61 árs gamla Roy Amor grunaði ekki….
1 athugasemd
Ekkert ping ennþá
Björn Baldursson skrifar:
16/04/2010 at 17:09 (UTC 0)
Best væri í dæminu um Roy Amor að sleppa lo. gamla og segja bara: Hinn 51 RA grunaði ekki…