Það var ótrúlegt dómgreindarleysi, þegar dagskrárkynnir (þula) Ríkissjónvarpsins birtist áhorfendum með kornabarn í fanginu (25.04.2010). Hver var tilgangurinn ? Hvað á svona bjánagangur að þýða?
Af hverju þarf Iceland Express að ávarpa íslenska sjónvarpsáhorfendur á ensku í nýjustu auglýsingu sinni og segja: Is it true? Þetta er ferðaskrifstofunni ekki til sóma.
Úr mbl.is (21.04.2010): Um tíma leit út fyrir að flug Flugfélags Íslands til Kulusuk félli niður í dag en af því varð ekki. Þetta hefði að skaðlausu mátt orða betur.
Meira um flug.Úr mbl.is (22.042010): Einhverjum alþjóðlegum vélum sem áttu að lenda í Keflavík og Reykjavík…. Með leyfi, hvað eru alþjóðlegar vélar ? Líklega er þetta íslensk aulaútgáfa af ensku orðunum international flights. Hér hefði mátt tala um millilandavélar. Fyrirsögn fréttarinnar var: Flogið á Akureyri og Egilsstaði. Betra hefði verið að segja: Flogið til Akureyrar og Egilsstaða.
Banki í Bavaríu, sagði þingmaður og fyrrverandi fréttamaður ,,Í vikulokunum“ (RÚV 24.04.2010) Bavaria hefur ævinlega heitið Bæjaraland á íslensku. Rétt eins og Bohemia heitir Bæheimur.
Úr dv.is (22.04.2010): Upp komst um málið á síðasta ári þegar ein af dætrum hans tókst að flýja heimilið… Hér átti að standa :… þegar einni af dætrum hans tókst…
Veitingahúseigendur og auglýsingahöfundar gera sitt til að spilla tungunni. Í heilsíðuauglýsingum frá veitingastað sem kallar sig GE(mynd af gaffli)SIR er lesendum boðið í bröns, og á færeyska turninum í Kópavogi er auglýstur Brunch á toppnum með um það bil mannhæðarháum stöfum. Þetta finnst Molaskrifara ógott. Orðið brunch er enska, búið til úr orðunum breakfast oglunch , – matarmikill hádegisverður yfirleitt á laugardegi eða sunnudegi ,- bæði morgunverður og hádegisverður. Af hverju ekki að nota hið góða orð dögurður, sem skv. íslenski orðabók þýðir, – fyrri máltíð dagsins ?
Stiklur Ómars (endurunnar,eins og sagt var) stóðu prýðilega fyrir sínu að kveldi sumardagsins fyrsta. Fínn þáttur. En ekki var það beysið sem kom í kjölfarið. Þrjár bandarískar framhaldsþáttaraðir. Svo afleit dagskrárgerð að engu tali tekur. – Desperate Housewives, Army Wives… Hvaða eiginkonur býður sjónvarp ríkisins upp á næst ? (Þetta er nú kannski svolítið dónaleg tvíræðni!) Það er vandaverk að setja saman dagskrá. Þetta var eiginlega óboðlegt.
Skildu eftir svar