Þau komust vel frá sínu Sigmar og Jóhanna Bryndís í Ríkissjónvarpinu í kvöld. Þátturinn var býsna góður. Það er ekki auðvelt verk að spyrja og stjórna í þætti sem þessum, en þeim tókst prýðilega upp, að mati nokkuð gamals spyrils og þáttastjórnanda.
Varðandi frammistöðu foringjanna skal ekkert sagt. Þar hefur hverjum þótt sinn fugl fagur svo sem venja er og líklega breyta svona þættir ekki skoðunum margra.
Þetta rifjaði það hinsvegar upp að í gamla daga var svo mikil áherzla lögð á að allir fengju jafnan tíma að tímavörður sat í myndstjórnarherberginu og mældi hversu lengi hver talaði og þegar tveir þriðju þáttarins eða þar um bil voru búnir, fékk stjórnandinn tímayfirlitið, svo lítið bar á, og gat þá gefið þeim orðið sem minnst höfðu talað, en það var ekki alltaf að menn nýttu það til hlítar . Sumir pólitíkusar vissu nefnilega ,að það var ekki meginmál hve lengi var talað heldur hvað var sagt.
Líka rifjaðist upp misheppnaðasti þáttur ,sem ég átti aðild að í sjónvarpinu á sinni tíð. Þá vorum við einir þrír spyrjendur, Kastljósgengi , og gott ef voru svo ekki tveir fulltrúar frá hverjum stjórnmálaflokki. Sjálfsagt fimmtán manns. Þessi kokkteill gerði að verkum að umræðan var sundurlaus, út og suður og þátturinn í alla staði ómögulegur. Þetta var heldur aldrei gert aftur.
Skildu eftir svar