«

»

Molar um málfar LXXXIV

  Ábyrgð þeirra sem semja  auglýsingar er ekki minni en  þeirra sem  skrifa fréttir í  fjölmiðla.  Oft hefur verið á það bent í þessum  Molum hvað  enskuslettur og   ambögur vaða uppi í auglýsingum. Alltof margir   textahöfundar eru ekki  starfi sínu vaxnir.

  Fleiri   fyrirtæki   bætast nú í hópinn og  auglýsa brunch.Nýjasta  auglýsingin með þessar slettu er frá IKEA, sem  auglýsir óeypis  brunch og  notar ekki einu  sinni gæsalappir, eða leturbreytingu,  til að    gefa  til kynna  að þetta er erlent orð. Í sama blaði og þessi  auglýsing  birtist er   boðið upp á  brunch með  brúðhjónunum. Þar   skammast   skrifari til að hafa orðið innan  gæsalappa.

  Húsasmiðjan og Hagkaup  halda áfram  með  slettuna tax-free í auglýsingum.  Hagkaup  býður  vörur án  virðisaukaskatts. Það eru ósannindi. Fyrirtæki  geta ekki boðið viðskiptavinum sínum  skattfrjálsar  vörur. Þau   geta  hinsvegar  boðið viðskiptavinum vörur   með afslætti, sem  nemur  jafn hárri  prósentutölu og  virðisaukaskatturinn.

 Ríkisútvarpið og  Skíðaskálinn í Hveradölum  halda  áfram að  tönnlast á enska  orðinu Reunion í auglýsingum. Þar þverbrýtur   Ríkisútvarpið eigin reglur um auglýsingar.  Skíðaskálinn í Hveradölum bætir  svo  gráu ofan á  svart með því að  segja  í skjáauglýsingu á RÚV: Heitir hlutir  gerast hjá okkur.  Ætli  við heyrum ekki næst:  Heitir  hlutir gerast á    reunion hjá okkur ! Kæmi ekki á óvart.

Meira um ensku: Í Fréttablaðinu (06.06.09.)  er  grein á íslensku  eftir  Íslending.  Fyrirsögn greinarinnar er: I love this  game. Hversvegna  í ósköpunum  fyrirsögn á  ensku á  grein á íslensku í íslensku dagblaði ? Er höfundurinn að sýna okkur að kunni pínulítið í ensku ? Þykir honum þetta flott?  Hefur  Fréttablaðið enga sómatilfinningu gagnvart móðurmálinu ?

  Hallærisleg ritvilla er í heilsíðuauglýsingu  frá   Rekkjunni,  fyrirtæki  sem  selur  rúm. Þar  stendur stórum stöfum: Líkur í dag. Þar ætti að  standa: Lýkur í dag.   Fyrir nokkuð löngu sendi ég þessu  sama  fyrirtæki  athugasemd, þegar í  auglýsingu   frá því  var sagt  annaðhvort  mér langar eða  vantar þér. Það  hlaut  litlar undirtektir. Fékk allt  að því skæting í  svari.    Rekkjan ætti að sænga með annarri  auglýsingastofu.

 Úr Vefvísi (08.06.09.): Ökumaður hinnar bifreiðarinnar stöðvaði rétt aðeins samkvæmt lögreglu en hélt síðan áfram för án þess að setja sig í samband við nokkurn mann.

Engar upplýsingar eru um hver var þar á ferð og enginn tók niður skráningarnúmer bifreiðarinnar samkvæmt lögreglu.  

Eins og  hér  hefur verið nefnt áður  er  orðlagið  samkvæmt  lögreglu ambaga.

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Kristinn R. Ólafsson skrifar:

    Ég stóð í anddyrinu á Loftleiðahótelinu eldsnemma morguns fyrir rúmri viku að bíða eftir flugrútunni sem auðvitað hafði á framrúðu miða sem á stóð flybus; ekki orð á íslensku um að þetta væri flugvallarrútan… En meðan ég beið eftir að hún kæmi í ljós, blasti við mér blað á innritunarborðinu þar sem auglýst var á íslENSKU brunch fyrir gesti og gangandi. Ég mátti taka á honum stóra mínum að þrífa ekki upp penna, rífa bévítans blaðið úr plastheldu, strika yfir déskotans bröntsjið og skrifa í staðinn dögurður!

    En brúnin á mér léttist þegar útá Keflavíkurvöll kom. Þar óskaði ég erlendri starfskonu við kassann í greiðasölu til hamingju með þá góðu íslensku sem hún talaði við alla sem hún afgreiddi, með svolitlum hreim sem kom uppum hana en allt hárrétt: “Góðan dag… þetta eru…. xxx krónur…” Það þótti mér ánægjulegt en um leið sorglegt: að finna meiri metnað hjá útlendingi en innlendum að nota tungu okkar og varðveita. Hún brást við hamingjuóskum mínum með brosi, fallegu undrunar- og þakklætisbrosi…

    Kveðjur,

    Kristinn R. í Madríd

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>