«

»

Molar um málfar og miðla CX

Í DV (22.07.2009)  eru nokkrar  síður  helgaðar  Vestfjörðum. Þar er  greinarkorn um það er   sjóræningjar rændu sýslumanninum á Rauðasandi. Fyrirsögnin er  reyndar í  óþarfri þolmynd. Germynd er alltaf betri. En undirfyrirsögnin er undarleg:  Í  Sjóræningjahúsinu á  Patreksfirði eru rifjaðar upp viðkomur sjóræningja fyrir uppátæki þeirra.  Þessi  setning er mér  gjörsamlega  óskiljanleg.  Í henni er ekki heil hugsun.   Í greininni segir, er fjallað er um  fjölgun ferðafólks á  Vestfjörðum:  Við  stefnum að árvissum stíganda í efni  og  því að stækka  sýninguna… Þessi setning er lítið betri en undirfyrirsögnin.

Of algengt  er að  sjá orðið  verð  notað í fleirtölu  í auglýsingum. Verð er eintöluorð. Gott verð. Ekki  góð  verð.  Nú hefur  nýtt orð  bæst í þetta  fleirtölufár í auglýsingum. Húsgagnahöllin  auglýsir: Alvöru afslættir. Molaskrifara  finnst  að   rétt eins og  verð , sé  afsláttur   eintöluorð.

Í tíufréttum RÚV sjónvarps (22.07.2009) var  fjallað um ábyrgð Íslands á margnefndum Icesave bankareikningum í Bretlandi. Þrisvar sinnum, já, þrisvar  sinnum ,  var  sagt að ábyrgð  Íslands  væri óafturkræfanleg ! Það er óafturkræft „sem ekki er unnt að krefjast (taka) aftur“, eins og segir í Íslenskri orðabók. Molaskrifari gerðist svo djarfur að senda Fréttastofu RÚV (þessari sem við eigum öll samkvæmt auglýsingaherferðinni) svohljóðandi vinsamlega ábendingu skömmu eftir fréttir: Í  tíu fréttum var þrísagt  að ábyrgð Íslands á   Icesave  reikningunum  væri  óafturkræfanleg. Þetta er ástæðulaust nýyrði. Óafturkræf  hefði  nægt. Ekki getur þettatalist ókurteisi. Ekkert  svar, ekki frekar en fyrri daginn. Enda kemur okkur eigendum þetta  ekkert við og við  eigum ekki að vera með nöldur  eða  afskiptasemi. Við eigum bara að þegja  og  hlusta með lotningu á það sem  við okkur  er  sagt.

 Sá orðhagi Stefán Jónsson fréttamaður, rithöfundur og þingmaður  bjó  til nýyrði um þá  sem  fyllast  hofmóði við það eitt að setjast  við hljóðnema. Hann sagði að þeir  væru með míkrófónbólginn haus. Það er ástæða til að halda því til haga. Hofmóður er dramb.

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Steini Briem skrifar:

    Lög um Ríkisútvarpið ohf. nr. 6/2007:

    II. kafli. Hlutverk og skyldur.
    3. grein. Útvarpsþjónusta í almannaþágu.
    Hlutverk Ríkisútvarpsins ohf. er rekstur hvers konar útvarpsþjónustu í almannaþágu, svo sem hljóðvarps og sjónvarps, eftir því sem nánar er ákveðið í lögum þessum.
    Útvarpsþjónusta í almannaþágu felur í sér eftirfarandi:
       1. Að leggja rækt við íslenska tungu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð. …“

    Málstefna Ríkisútvarpsins
    Ríkisútvarpið skal samkvæmt lögum efla íslenska tungu og menningu. Útvarpsráð telur að stofnunin hafi mikilvægu fræðslu- og uppeldishlutverki að gegna á þessu sviði.
        Allt málfar í Ríkisútvarpinu á að vera til fyrirmyndar, og allt sem frá stofnuninni kemur, á vandaðri íslensku, flutt með góðum framburði.
    Erlend orð sem ekki verður komist hjá að nota, ber að samræma lögum íslenskrar tungu, eftir því sem fært þykir og góð venja býður.“

    Þingsályktunartillaga um íslenska málstefnu samþykkt 12.3.2009
    :

    HlustaHorfa

    Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra um atkvæðagreiðsluna:

    „Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að koma hér og fagna afgreiðslu þessa máls og þeirri góðu umræðu sem orðið hefur í þinginu um málstefnuna, bæði í 1. umræðu og 2. umræðu. Ég óska okkur til hamingju með afgreiðslu þessa máls og ég treysti því að við sem hér sitjum vinnum áfram að því að málstefnan muni komast til framkvæmda. Það er mér mikill heiður að fá að vera menntamálaráðherra þegar þessi stefna er samþykkt en um leið óska ég forvera mínum í starfi til hamingju með afgreiðslu þessa máls.“

  2. Steini Briem skrifar:

    Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra, katrin.jakobsdottir@mrn.stjr.is

    Ásgrímur Angantýsson
    , nýr málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins, asgrimur@ruv.is

    Nýr málfarsráðunautur RÚV

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>