«

»

Molar um málfar og miðla CXII

 Í yfirliti hádegisfréttatíma  RÚV (25.07.2009) var sagt  frá   því að eldur hefði kviknað í þaki íþróttahúss fatlaðra við Hátún. Sagt var að slökkviliðið hefði náð góðum tökum á  eldinum. Þetta finnst mér  einkennilegt orðalag. Góðum tökum?  Líklega var átt við að slökkviliðsmenn hefðu náð tökum á  eldinum. Þetta orðalag var  ekki notað í sjálfri fréttinni. Í fréttatíma  Stöðvar tvö sama  dag var  fjallað um þennan eldsvoða og sagt: Allar stöðvar slökkviliðsins voru á  svæðinu. Þetta  er ruglað  orðalag. Nær  hefði verið  að segja:  Lið frá  öllum  slökkvistöðvum á höfuðborgarsvæðinu barðist við  eldinn.

Í sama fréttatíma  var talað um Litháena. Við köllum þá  sem  búa í Litháen Litháa, ekki satt?

Í  sexfréttum RÚV  var (aldrei þessu vant!) fjallað um Icesave. Þá var   sagt: .. sem nú er í umfjöllun þingsins. Ekki  kann ég  við þetta  orðalag. betra hefði mér fundist: … sem  nú er  til umræðu á  Alþingi.

Úr Vefdv (25.07.2009):Veitingastaðurinn sem um ræðir heitir Claim Jumper og er hann víðsvegar um Bandaríkin. Það var og. Ekki getur  einn veitingastaður  verið víðsvegar um Bandaríkin.  Hér hefði  t.d.  átt að segja. Veitingastaðir með því nafni eru víða í Bandaríkjunum.

Fyrirsögn af Vefvísi (25.07.2009): Landhelgisgæslan siglir til móts við hollenska skútu.  Landhelgisgæslan siglir ekki, heldur  eitt af varðskipum Landhelgisgæslunnar.

Eyjubloggari skrifar (26.07.2009): Egill Helgason rifjar upp þrjú vond mistök í kjölfar bankahrunsins: Mistök er fleirtöluorð, rétt eins og verðlaun. Þessvegna  hefði þessi ágæti bloggari átt að  segja: E.H.  rifjaði upp þrenn vond mistök.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>