«

»

Molar um málfar og miðla XCIII

 Það var svartur fréttatími  í  Ríkissjónvarpinu í kvöld. Þar rak hver fréttin  aðra  um atferli  bankabófanna, sem  forðuðu fjármunum sínum í skattaskjól víðsvegar um veröldina, þegar þeir sáu  afleiðingar afreka sinna  kristallast í yfirvofandi hruni bankanna. Svo  situr þjóðin í   skuldasúpunni  sem  þessir  20-30 menn hafa  soðið okkur.  Og allir ganga þeir lausir, — ennþá. Mennirnir  sem  settu íslenska  samfélagið á hliðina. Sumir þeirra hafa  nú atvinnu  af  ráðgjöf. Aðrir  kenna  ungu fólki  fjármálafræði. Svei attan !

 Sömu ambögurnar aftur og aftur ! Auglýsingabæklingi frá ELKO var stungið inn um bréfalúguna hjá mér (27.07.2009) í morgun. Þar stendur á  forsíðu: Verslaðu GSM símann þinn í ELKO. Þar með  fór sá  bæklingur í endurvinnslubunkann. Það verslar enginn síma. Sumir kaupa síma.

  Í Molum hefur  stundum verið rætt um ofnotkun þolmyndar. Í grein í Morgunblaðinu (26.07.2009) segir um hlut í fyrirtæki: Sá hlutur hefur  nú verið keyptur af okkur  aftur.. Hér er notkun þolmyndar ógóð því merkingin verður óskýr.  Þetta getur  bæði þýtt: Við höfum  selt  hlutinn, þ.e. einhver hefur  keypt hann  af  okkur  eða  við höfum keypt  hlutinn  aftur.  Af lestri greinarinnar er ljóst  þau sem  þarna  tala  hafa keypt hlutinn í fyrirtækinu að  nýju. Enn segir  Molaskrifari:  Germynd er  alltaf betri Við höfum nú keypt  hlutinn aftur.  Skýrt og skilmerkilegt.

Í leiðara Morgunblaðsins (27.07.2009) stendur: Rétt eins mætti færa  rök að því að að  erfiðara yrði að tudda á ríki,sem stæði í aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Tudda á.  Í orðabók má  finna orðið  tuddast, óformlegt íþróttamál. leika  gróft,sýna tuddaskap í leik.  Að tudda á  er barnamál rétt eins og að klessa á .  Nú er leikskólamálið komið í leiðara Moggans.

 Í  sjöfréttum  RÚV (27.07.2009) var sagt frá skemmtiferðaskipi sem sigldi á  hval á og  drap hann.  Hékk  hvalurinn svo á perustefni skisins  uns  það kom í höfn í Vancouver. Tvísagt var að  skipið hefði lagt að höfn í Vancouver. Skip koma í höfn.   Skip leggjast að bryggju. Skip liggja við bryggju. Skip leggjast  ekki að höfn. Á vef  RÚV  sama  dag er einnig  fjallað um þennan atburð: Þar segir: ..en 22 metra dauður langreiður sat fastur á stafnkúlu skipsins. Við þetta er tvennt  að  athuga. Langreyður er ritað með y ekki i  og langreyður er kvenkynsorð. Þessvegna  hefði átt að    skrifa: .. 22 metra langreyður  sat  föst..  Hinsvegar   finnst mér  stafnkúla vera  mun falllegra orð en perustefni,sem ég notaði.

Það var skemmtilegt að hlusta á gengna þingskörunga  í  Andrarímum, Guðmundar Andra Thorssonar, á rás eitt  í RÚv á sunnudagskvöld (26.07.2009). Flutt var  efni úr þætti  Indriða G. Þorsteinssonar, ritstjóra og rithöfundar , Sitt sýnist hverjum, frá  árinu 1965. Þar töluðu þeir  Bjarni Benediktsson, Lúðvík Jósefsson og Eysteinn Jónsson um þá kosti  sem þingmaður  þyrfti að vera prýddur,  eða  hverskyns   nám  eða  störf  væru bestur undirbúningur  fyrir þingmennsku. Allir  voru þeir góðir, en að hinum ólöstuðum fannst mér  Bjarni bestur. Vona  að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi verið að hlusta.

 Allir  töluðu   þessir  stjórnmálaforingjar  einstaklega vandað mál.  Í flestum meginatriðum  voru þeir reyndar sammála. Eysteinn  sagði að þingmenn  þyrftu að vera  vel máli  farnir. Besta leiðin  til að tileinka  sér gott málfar  væri að lesa og lesa  vandaða  texta og leggja  sig  eftir að  ræða  við þá sem hefðu gott   tungutak, þá  væri  víða að  finna ef  vel  væri leitað.  Með þessu átti  Eysteinn örugglega  við að  slíkt  fólk væri  ekki einungis  að finna meðal  langskólamanna  heldur og  ekki síður  meðal alþýðu þessa lands  til  sjávar og sveita. Orð að sönnu. Öllum þessum mönnum var ég persónulega kunnugur. Bjarna þó minnst,

 

6 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður Svanberg Guðnason skrifar:

    Jú, það er  rétt athugað, Birgir Örn. Þetta fór framhjá mér.

  2. Birgir Örn Birgisson skrifar:

    Færir maður ekki rök fyrir einhverju?

  3. Predikarinn - Cacoethes scribendi skrifar:

    Afsakið þetta.

    Það voru nú greinaskil í pistlinum mínum þegar ég setti hann hér inn á síðuna. Þess sjást engin merki eins og glöggir lesendur geta séð.

  4. Bjarni Kjartansson skrifar:

    Afskaplega ljúft að hlusta á mál þeirra genginna stjórnmálamannanna um hvað ætti að vera kennimark góðra þingmanna.  Betur að margur nútímamaðurinn hlustaði aftur og aftur á þessi vitorð.

    Um hitt sem þú skrifar um úr nútímanum, aðferðir bankamanna okkar og digurbarka um eigin ágæti í fjármálakúnstum, setti ég inn á þráð eins bloggarans þetta:

    Svo er mér sár sú mismunun sem virðist ganga yfir, nánast hljóðlaust.

    Ungir menn, sem líklega höfðu verið verkfæri í höndum kunnáttumanna í fjármálagerningum, eru settir í járn vegna gruns um, að hafa ,,svikið út“um það bil fjóra miljónatugi en stórlaxarnir sem eru berir að svikum og blekkingum upp á milljarðatugi, fá auglýstar ráðgjafaskrifstofur sínar erlendis og fjölmiðlungar birta bullið úr þeim nánast spurningalaust.

    Svo eru þeir sem voru formenn greiningadeilda nú að skrifa um hrunið til brúks í útlöndum.  Hvítþvo sig og segja nú, að það hafi ekkil verið nokkur von til að bjarga bönkunum, hvorki ríkið eða aðrir hafi haft til þess getu.  SAMT vældu sömu menn um stærsta bankarán sögunnar og hvað eina báru út ráðamenn sem þó voru búnir að lána langt um fram getu bankana til að standa við,–allt í krafti upplýsinga ÞESSARA SÖMU MANNA sem nú tala flátt til þeirra.

    Miðbæjaríhaldið

    Vildi undirstrika, að svona hefði trauðla verið liðið fyrir Vestan hjá áum mínum, einhver hefði þurft að snýta rauðu ef ekki vinna mat sínum við bág kjör til yfirbótar.

    Bjarni Kjartansson

    Íhald, af fornri gerð

  5. Eiður Svanberg Guðnason skrifar:

    Leiðrétti hér með  númerið á þessum pistli. Á auðvitað að vera CXIII.

  6. Eygló skrifar:

    Viðtal við fólk sem er að opna safn. Goðafræðin þar fyrst og fremst, a.m.k. „aðalsöguhetjurnar“.

    Viðmælendurnir tveir svöruðu til skiptis. Hann vildi lofa hennar hlut og sagði að þetta væri nú hennar „baby“.

    Um Loka var sagt að hann væri flókinn persóna, ekki bara það sem hann gerði, heldur væri svo margt sem hann „triggeraði“.

    Man ekki hver það var, en eitthvert goðanna var í vanda vegna þess sem það þurfti á „díla“ við.

    Mér fannst þetta sérstaklega átakanlegt vegna umræðuefnisins.  Ég mun allavega ekki borga stórfé þarna inn; svo hrædd um að merkingar verði í sömu ætt 🙂

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>