Engu er líkara en sumir fréttamenn vinni markvisst að því að útrýma góðum og gildum íslenskum orðtökum og taka í staðinn upp aulaþýðingar úr ensku. Í sjöfréttum (27.07.2009) RÚV sjónvarps var fjallað um Landsbankasukkið. Þar talaði fréttamaður um síðasta sumar (e. last summer) Á íslensku er sagt í fyrra sumar. Daginn áður var í fréttatíma Stöðvar tvö sagt: Mótið hófst síðasta mánudag. Mótið hófst á mánudaginn var.
Í fréttatíma Stöðvar tvö (27.07.2009) sagði fréttamaður: .. sjóðurinn þarf tryggingu á því .. en átti við að sjóðurinn þyrfti tryggingu fyrir því…
Konur nokkur sagði okkur frá því að mikill jarðskjálfti yrði klukkan 23:15 þann 27. júlí. Mörgum hefur hún ugglaust skotið skelk í bringu. Líklega ætti það að varða við lög að hræða fólk með þessum hætti. Í fréttatíma komst þulur á Stöð tvö þannig að orði , að konan hefði séð fyrir Suðurlandsskjálftunum. Að sjá fyrir einhverjum er að annast framfærslu einhvers en að sjá eitthvað fyrir er að hafa fyrirfram vitneskju um að eitthvað muni gerast. Svo gerðist auðvitað ekkert.
Í fréttatíma Ríkissjónvarpsins (27.07.2009) var fjallað um umsókn Íslands og fleiri landa um aðild að ESB . Þar talaði þulur um að spyrða þessum löndum saman. Um þetta hefur áður verið rætt í Molum. Rétt hefði verið að segja: Að spyrða þessi lönd saman.
Í stuttum fréttatíma RÚV klukkan fimm að morgni þriðjudagsins 28. júlí taldi Molaskrifari fimm eða sex ambögur. Þar var meðal annars talað um skynsamar tillögur og farsælustu leiðina til friðs. Þarna hefði átt að nota orðiið skynsamlegar um tillögurnar og farsælustu leiðina til friðar. Molaskrifari er hinsvegar aldrei til friðs að mati sumra fréttamanna. Það væri ráð að málfarsráðunautur RÚV hlustaði á þennan fréttatíma með þeim sem hlut eiga að máli og benti þeim á ambögurnar.
Gott var að heyra í gærmorgun (28.07.2009) að Morgunfrú Rásar eitt talaði um að klukkur kirkjunnar sem hún nefndi hefðu hljómað á undan og eftir morgunbæn.
8 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Birgir Örn Birgisson skrifar:
31/07/2009 at 16:43 (UTC 1)
sæll Eiður,
Þessi athugasemd er nú bara skrifuð með farsíma á Apavatni. En ég verð að gera athugasemdir við greinina ,,allt er hey í harðindum“ sem birtist í morgunblaðinu í dag, 31 júlí. Þar er m.a. Sagt : . . . frekar lélegt hey í harðindum og . . .gæðin enn verri. . Og hvernig er það eðlilegt að tala um marga aðra ??
Kv. Birgir
Sigfús Örn skrifar:
31/07/2009 at 16:17 (UTC 1)
Sæll Eiður.
Það eina sem ég hef rekist á um orðtakið að koma einhverjum fyrir kattarnef er úr ritmálsskrá Háskólans. Þar segir að þetta komi fyrst fyrir í Víkverja, útgefnum í Reykjavík, 1873-74.
Ég spurði að því í einni færslu, fyrir um mánuði líklega, hvort þú hefðir rekist á að fólk setti oftar en áður orðið víst þar sem (mér þykir) að orðið fyrst ætti að standa, en hafði ekkert haldbært dæmi undir höndum. Á vef Vísis (visir.is), en einhverjum kann að þykja það vera að æra óstöðugan að minnast á skrif þess vefjar, er eftirfarandi fyrirsögn í dag: „Ferguson þarf að breyta um leikaðferð víst Ronaldo er farinn“. http://visir.is/article/20090731/IDROTTIR0102/872214385/-1
Víst er Ronaldo farinn en fyrst svo fór er líklega best að breyta um leikaðferð hjá liðinu.
Ef til vill er ég að halda fram einhverri vitleysu og að ekkert þyki að þessari setningu og skal ég þá hætta að leiðrétta vini og vandamenn sem tala og skrifa svona. Annars þætti mér gaman að heyra hvað þú hefur um þetta að segja ef þú mátt vera að því að skoða málið örlítið.
Þakka góðan pistil að vanda.
Bestu kveðjur,
Sigfús Örn.
Karl skrifar:
31/07/2009 at 14:14 (UTC 1)
Sæll Eiður.
Kærar þakkir fyrir fróðleg og vönduð skrif þín um íslenskt mál. Af nógu er að taka!
Mér þætti fróðlegt að vita hvernig þú skýrir þá augljósa afturför og hreina hnignun íslenskra fjölmiðla. Þá á ég við málfar en ekki síður almenna umfjöllun, fréttir. Sjálfur tel ég það áhyggjuefni að íslenskir fjölmiðlar skuli vera svo slakir sem raun ber vitni á þessum ógnartímum.
Telur þú að málfari hafi hnignað vegna niðurskurðar, t.d. vegna eignarhalds auðmanna eða telur þú að almennt hafi íslenskukunnáttu hrakað hér á landi? Hvernig telur þú annars að eignarhald auðmanna hafi leikið svonefnda „frjálsa“ fjölmiðla í landinu?
Telur þú íslenska fjölmiðla góða? Eru þeir að þínu viti áhugaverðir þ.e. bjóða þeir fram áhuga vert efni?
Ég þykist viss um að fleiri en ég hefðu áhuga á að vita hver sýn þín er til þess sem ég nefndi.
Þakka þér aftur fyrir þín góðu skrif og ábendingar.
Kær kveðja
KK
Eiður Svanberg Guðnason skrifar:
30/07/2009 at 07:58 (UTC 1)
Sæll ,Sigurður Hreiðar, – þakka lofið, en gaman væri að vita hver er uppruni orðtaksins að koma fyrir kattarnef. Mér er heldur vel við ketti, enda alinn upp með þeim !
Steingrímur, netfang málfarsráðunautar RÚV er: asgrimur@ruv.is
Steingrímur Kristinsson skrifar:
29/07/2009 at 23:16 (UTC 1)
Mikið langar mig til að vita hvað málfarsráðunautur RÚV heitir. Hvort hann er þar í 1/4 starfi, lálaunaður, eða er ef til vill enginn í ofannefndu starfi hjá RÚV, einhver sem á að, og getur kennt þessu málfarsvillta fólki íslenskt tungutak, þulunum sem þar eru látir tala niður til okkar sem hlustum?
Sigurður Hreiðar skrifar:
29/07/2009 at 16:37 (UTC 1)
Góður pistill að vanda, Eiður. Önnur merking í því að sjá fyrir einhverjum er að koma honum fyrir kattarnef.
Góð kveðja
365 skrifar:
29/07/2009 at 15:48 (UTC 1)
Hvernig er það, er búið að skera svo niður við trog að það sé ekki neinn málfarsráðunautur á staðnum hjá RÚV? Það væri miður, en kæmi ekki á óvart.
Yngvi Högnason skrifar:
29/07/2009 at 10:09 (UTC 1)
Heima hjá mér var ætíð talað um júlí sem sjöunda mánuðinn og júní hinn sjötta. Þar var enginn mánuður núll þetta eða hitt.