Bjarni Sigtryggsson hugsar oft til Mola um málfar og miðla. Hann sendi eftirfarandi:“Persónulegar upplýsingar Facebook-notenda gætu hafa verið lekið út til þriðja aðila…“ Svona hefst frétt á dv.is í dag (11.05.2011) og lýkur á þessari stórfurðulegu málsgrein:“Facebook hafa núna séð til þess að gallinn sé ekki lengur fyrir hendi en samkvæmt talsmanni Facebook eru engar sannanir um að einhver hafi notfært sér umræddan öryggisgalla. Talsmaðurinn segir einnig að skýrsla Symantec sé ekki alveg rétt og líti til að mynda fram hjá því að samkvæmt samningi facebook við auglýsendur og þróunaraðila forrita þá sé þeim bannað að ná í eða deila upplýsingum sem á hátt sem fer gegn reglum síðunnar.“
Svo bætir Bjarni við:
Ritstjórar DV eiga verk fyrir höndum að kenna blaðamönnum að lesa texta sinn yfir áður en hann er birtur, og leita hjálpar ef þörf krefur.
Í sexfréttum Ríkisútvarpsins (11.05.2011) var sagt: …. þarf skólinn að uppfylla ítarlega reglugerð. Svona er ekki hægt að taka til orða að mati Molaskrifara. Betra hefði verið: Þarf skólinn að fullnægja skilyrðum sem sett eru í ítarlegri reglugerð.
Í kynningu á dagskrá Ríkisútvarpsins (11.05.2011) var sagt: …. sem hefst á Rúv klukkan 22 15. Hvar í dagskrá Ríkisútvarpsins ? Það var ekki sagt. Nú er allt Rúv, Rúv í Efstaleiti. Þessvegna gat umræddur þáttur verið á Rás eitt, Rás tvö eða í Ríkissjónvarpinu. Ekki góð vinnubrögð. Við athugun kom í ljós, að þetta var einn af svona þúsund þáttum um boltaleiki og þessvegna var hann auðvitað í Ríkissjónvarpinu, – á besta tíma kvölds.
Áhöfnin á TF Gná, þyrlu landhelgisgæslunnar fékk harla óvenjulegt verkefni í dag, sagði fréttamaður í kvöldfréttum Ríkissjónvarps (11.05.2011) að skima eftir hvítabjörnum á Hornströndum…. Örstuttu seinna kom í ljós, að verkefnið var ekki óvenjulegra en svo að þetta er gert á hverju einasta vori. Þetta var undarlega skrifað. Varla getur árlegt verkefni talist harla óvenjulegt. Þeir sem svona skrifa eru annarshugar við skriftirnar, – að ekki sé nú meira sagt. Molaskrifari hefði ekki notað orðalagið skima eftir. Heldur sagt: Skimast um eftir.
Blaðamaður á visir.is , sem skrifar um hljómleikahöllina Hörpu, segir (11.05.2011): Fréttir af húsinu hafi spyrst vel út um víðan völl. Það var og.
Talsmaður Hörpu segir í sömu frétt: ,,…… við erum bara á Íslandi og fólk mun komast að því að þetta hús er að opna.“ Sama meinlokan og þegar fréttamenn tala um að kjörstaðir opni. Hvað er húsið að opna? Það var verið að opna húsið.
Nú er sífellt talað um Hörpu með ákveðnum greini. Hljómleikar eru haldnir í Hörpunni. Margir sóttu tónleika í Hörpunni. Húsið heitir Harpa, ekki Harpan. Molaskrifari féll reyndar sjálfur í þessa gryfju í stuttri athugasemd á fésbókinni. Þetta er smitandi fjári.
Molaskrifari heyrði ekki betur en talað væri um að syngja á kýpversku í Evróvisjónlýsingu Ríkisútvarpsins ! Kannski verður þar líka sungið á belgísku? Hver veit ? Og svo sigra menn keppnina eins og þulurinn sagði.
Skildu eftir svar