Hvaða lausnir sérðu möguleika á? Svona orðaði fréttamaður RÚV spurningu í hádegisfréttum (30.01.2010). Hann hefði getað sagt: Hvaða lausnir eru í sjónmáli ? Eða: Hvaða lausnir eru mögulegar?, – ekki gott. (30.01.2010) Í sama fréttatíma var sagt: „… strax á eftir helgina.“. Þarna var á-inu ofaukið.
Lögreglubolir enn á lausu, sagði í þriggja dálka forsíðufyrirsögn í Morgunblaðinu (30.01.2010). Fréttin var um stuttermaboli ,sem stolið var, en bolirnir eru merktir lögreglunni. Í Íslenskri orðabók segir hinsvegar að vera á lausu þýði að vera ekki bundinn í vinnu eða vera ógiftur, ekki í ástarsambandi.
Í Fréttablaðinu (30.01.2010) er fjallað um kaup Málningar á Slippfélaginu. Í fréttinni segir: „Botninn tók úr rekstrargrundvelli Slippélagsins nokkru fyrir síðustu áramót…“ Þetta er illa að orði komist að mati Molaskrifara. Botninn getur ekki tekið úr einu eða neinu. Til dæmis hefði mátt segja að rekstargrundvöllur Slippfélagsins hafi brostið nokkur fyrir síðustu áramót.
Íslenskir kaupmenn virðast flestir sammála um að troða enskuslettunum TAX FREE inn í móðurmálið. Nú hefur Europris bæst í hóp þeirrra fyrirtækja sem auglýsa vörur undir þessu slagorði. Slæm þróun.
Skildu eftir svar